fimmtudagur, 27. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þurfum að herða róðurinn

Guðjón Guðmundsson
9. júní 2019 kl. 10:00

Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri hjá Matís

Blikur á lofti varðandi verðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi.

Dregið hefur saman með íslenskum sjávarútvegi og erlendum samkeppnisfyrirtækjum á síðustu árum. Á sama tíma og dregið hefur úr stuðningi við rannsóknir og nýsköpun hérlendis hafa mörg erlend sjávarútvegsfyrirtæki innleitt íslenska tækni í sinni starfsemi.

Eftir að AVS rannsóknasjóðurinn var stofnaður 2003 tvöfaldaðist verðmætasköpunin í sjávarútvegi á Íslandi á árabilinu 2003-2011 í erlendum myntum en á síðustu árum hefur hún dregist saman. Þetta er meðal þess sem fram kemur í máli Arnljóts Bjarka Bergssonar, sviðstjóra hjá Matís.

Arnljótur fer fyrir því sviði innan Matís sem fæst við innleiðingu og áhrif rannsókna og nýrrar tækni á matvælaiðnaðinn. Hann bendir á að haustið 2017 hafi verið hvatt til þess að stefnt yrði að fimmföldun þeirra verðmæta sem unnin eru úr sjávarfangi hér á landi. Því miður hafi sú umræða ekki undið upp á sig en þess í stað hverfst að mestu leyti um fiskveiðistjórnkerfið; um það hver má veiða, magn afla, veiðigjöld og svo framvegis. Arnljótur segir að umræðan hér á landi hafi snúist meira um umgjörðina frekar en starfsemina innan sjálfrar atvinnugreinarinnar. Efst baugi hafi verið fiskveiðistjórnunarkerfi en ekki málefni sjávarútvegsins sem eru markaðsmál, menntun, umbúðir, vöruvöndun, innleiðing þekkingar, viðskiptasambönd, vöruþróun, langtíma markaðssetning, sölumál og agi í gegnum alla virðiskeðjuna.

Auka skal verðmætasköpun

Með upptöku kvótakerfisins 1984 stóðu Íslendingar frammi fyrir nýjum veruleika. Það var ekki lengur hægt að sækja ótakmarkað magn fiskjar og ekki stóð í raun annað til boða en að gera meiri verðmæti úr þeim afla sem barst að landi. Arnljótur minnir á að í upphafi hafi fiskveiðistjórnunin einungis verið til eins árs í senn og þannig var það fyrstu árin. Þann tíma hafi menn búið við óvissu um hvort aflamarkskerfið yrði endanlega fest í sessi. Margir hafi þess vegna talið öruggara að vera með öflug skip og meiri úthaldsgetu. Líklega hafi þetta ástand tafið fyrir áherslu á aukna verðmætasköpun í sjávarútvegi vegna vonar um aukið sjávarfang.

„Umræðan hefur snúist meira um stjórnkerfið fremur en inntak sjávarútvegsins og mér finnst það eigi við ennþá. Hér og víða um heim vaxa fiskveiðar mikið á seinni hluta tuttugustu aldar og þegar nær dregur lokum aldarinnar er það öllum ljóst að ekki verður meira tekið úr hafinu, að óbreyttu fyrirkomulagi. Eldi og ræktun á öðru sjávarfangi eykst. Á Íslandi er tekin sú ákvörðun í upphafi þessarar aldar að lögð verði áhersla á að auka fremur verðmætasköpun í sjávarútvegi en að auka framleiðslu á sjávarfangi.“

Verðmætasköpun tvöfaldast frá stofnun AVS

Arnljótur bendir á að allt frá 95-99% alls þess afla sem berst á land sé seldur úr landi. Þess vegna sé eðilegra að skoða verðmætasköpunina í erlendum myntum frekar en íslenskum krónum. Þetta hefur Matís gert og niðurstöðurnar eru óvéfengjanlega þær að útflutningsverðmæti hvers kílós sem dregið er úr sjó tvöfaldast frá þeim tíma sem stofnað er til AVS rannsóknasjóðs í sjávarútvegi 2003 og Tækniþróunarsjóðs Vísinda- og tækniráðs og fram til ársins 2011. Verðmætinná hámarki í bandarískum dölum árið 2014, en í Evrum og SDR árið 2016. Mikil vakning varð í átt til aukinnar verðmætasköpunar við stofnun sjóðsins, sem gerði hina órofa keðju sjávarútvegs á Íslandi sterkari., með afrakstri varúðarleiðar við stjórn þorskveiða gátu fyrirtækin einbeitt sér, gert aukin verðmæti úr tækifærum s.s. þeim sem makrílveiðar buðu uppá. Samstarf tókst milli ólíkra aðila, farið var í auknum mæli í tækniþróun á sviði veiða og vinnslu og að tengja líftækni við sjávarútveg og til varð þekkingarbanki upp úr innlendu og erlendu þekkingarsamstarfi. Upp úr þessum þekkingargrunni hafa sprottið og vaxið fyrirtæki eins og Codland, Valka, Vélfag, Primex, TrackWell, Margildi, Grímur kokkur, Iceprotein, Kerecis og fleiri.

Dregur úr útflutningsverðmætum

„Frá árinu 2011 hefur verið meira flökt útflutningsverðmætunum frekar en stöðugur vöxtur. Mælt í íslenskum krónum vaxa verðmæti kílós af afla fram til ársins 2014. Síðustu ár hefur hins vegar dregið úr útflutningsverðmætum íslenskra sjávarafurða. Þau ná hámarki árið 2013 þegar þau voru 272 milljarðar króna, 243 milljarðar árið 2014, 232 milljarðar árið 2016 og árið 2017 eru verðmætin komin niður í 197 milljarða króna. Í erlendum myntum eru útflutningsverðmæti landaðs kílós 12-19% lægri árið 2017 en þegar mest var. Þarna verða breytingar í aflasamsetningu og það skiptir einnig máli hvernig uppsjávarveiðar ganga, gengisþróun, aðstæður á markaði og fleiri þættir. En breytingin skýrist líka að einhverju leyti af getu atvinnugreinarinnar til þess að hagnýta þekkingu sem verður til í víðtæku rannsóknasamstarfi sem miðar að því að auka verðmæti, matvælaöryggi og lýðheilsu, eins og sést á árunum frá 2003“ segir Arnljótur. Heildstæð hugsun skiptir máli. Það er ekki nóg að stjórna veiðunum ef afurðirnar eru ekki samkeppnishæfar á markaði.

Dregur saman með samkeppnisaðilum

Hann bendir á að samhliða verðmætaaukningunni hafi fyrirtæki sem þjónusta sjávarútveginn eflst og eru órofa þáttur atvinnugreinarinnar, til dæmis framleiðendur tækja og búnaðar. Samstarf sjávarútvegsfyrirtækja, þjónustu fyrirtækja og rannsóknaaðila, eins og Matís, hefur verið gott í gegnum tíðina.

„Fullyrða má að atvinnugreinin hafi eflst meðan áherslan var á þessi atriði. En fyrirtækin eflast og horfa til fleiri viðskiptavina en einungis íslenskra fyrirtækja. Með þessu móti hafa samkeppnisaðilar íslenskra hefðbundinna sjávarútvegsfyrirtækja fengið aðgang að þekkingu sem varð til í samstarfi sjávarútvegsins og rannsóknaaðila á Íslandi og það getur hraðað því að það dragi saman með íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum og samkeppnisaðilum erlendis. Eftir því sem þeir læra meira af því sem Íslendingar hafa gert því meir dregur úr samkeppnisforskoti íslensks sjávarútvegs. Við þurfum að fjárfesta sjálf í þróun okkar atvinnugreina, þannig getum við betur tryggt okkar hagsmuni. Það er mikilsvert að íslenskt hugvit komi að gagni víða um heim, en við þurfum jafnframt að hafa okkur öll við í þróuninni hér heima.“

40% af því sem fékkst 2011

Frá 2011 hefur dregið úr fjárframlögum til AVS og matvælarannsókna. Geta þekkingarsamfélagsins til þess að þjónusta matvælaframleiðslu minnkar en á sama tíma selja íslensku tæknifyrirtækin búnað til viðskiptavina erlendis sem eflir þeirra mátt í samkeppninni. Fjárheimildir AVS á þessu ári eru 40% af því sem þær voru 2011 án tillits til verðlagsþróunar á þessum tíma. Fjárheimildirnar núna eru 232 milljónir króna en hefðu þær fylgt verðlagi væru fjárheimildirnar 711 milljónir króna. Arnljótur segir að þetta dragi úr þróunar getu atvinnuvega auk háskóla, Matís, Nýsköpunarmiðstöðvar, nýsköpunar- og tæknifyrirtækja. Matís vinnur að íslenskum hagsmunum með alþjóðlegri rannsóknaþátttöku og nýtir möguleika til fjármögnunar rannsóknavinnu hér heima hvar svo sem tækifæri gefast. Bókfærðar tekjur Matís vegna evrópsks rannsóknasamstarfs voru 215 milljónir króna 2015 og framlag hins opinbera til AVS var 217 milljónir króna. Síðan þá hefur Matís aflað meiri tekna af evrópsku rannsóknasamstarfi á hverju ári en sem nemur fjármunum sem ríkið leggur til AVS. Þar að auki hafa innlendir samstarfsaðilar tekjur af alþjóðlegu samstarfsverkefnunum, s.s. Hafrannsóknastofnun, Skipasýn, Marel og Hampiðjan. Tekjur af þjónustusamningum við hið opinbera eru um 398 milljónir króna í ár, 2008 var fjárveiting til Matís var 430 milljónir, og fór hæst í 490 milljónir árið 2010. Þetta segir Arnljótur hafi áhrif á getu Matís til þess að þjónusta útgerðirnar, fiskvinnsluna, sölufyrirtækin, dreifingar- og flutningafyrirtækin og alla aðra starfsemi sem tengist matvælum.

Eigum að sækja fram

„Það er ekkert sérstaklega bjart framundan ef við höldum áfram á þessari braut. Það er samdráttur í verðmætasköpun sem helgast meðal annars af samdrætti í rannsóknum. AVS sjóðurinn er minni og færri komast í viðskipti við hann. Fyrirtæki sem gætu orðið næsta Marel eða Genís hafa minni burði til að vaxa úr grasi. Jafnframt hefur dregið úr fjárframlögum til matvælarannsókna sem standa undir fjórðungi af starfsemi Matís. Geta Matís til þess að þjónusta frumkvöðla eða stærri og öflugri fyrirtæki er minni og minnkar enn ef ekki er breytt um stefnu. Við megum ekki leggja árar í bát þegar aðrir herða róðurinn í nýsköpun sjávarútvegs,“ segir Arnljótur.