þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Treg makrílveiði, stórt gat í fjárlögum

1. september 2015 kl. 08:00

Makrílveiðar á grænlenska skipinu Ilivileq í fyrrasumar. (Mynd: Sigurður Davíðsson)

Grænlendingar ná vart að veiða helming af makrílkvóta sínum

Treg makrílveiði í grænlensku lögsögunni gæti skilið eftir sig rúmlega 40 milljóna króna gat í fjárlögum Grænlands fyrir árið 2015. Þetta kemur fram á grænlenska vefnum sermitsiaq.ag. Þessi upphæð samsvarar um 780 milljónum íslenskra króna.

Á vefnum segir ennfremur að í fjárlögum hafi verið gert ráð fyrir að makríllinn skili um 81 milljón krónu (tæpum 1,6 milljörðum ISK) í grænlenska ríkiskassann miðað við það að 85 þúsund tonna makrílkvóti veiðist að fullu.

Nýjustu opinberu aflatölur sýna hins vegar að Grænlendingar ná vart að veiða helming af makrílkvóta sínum. Búið var að skrá rétt rúmlega 30 þúsund tonna afla 27. ágúst síðastliðinn. Á sama tíma í fyrra var aflinn rúmlega tvöfalt meiri eða tæp 65 þúsund tonn.

Í nýlegum makrílleiðangri kom einnig í ljós að minna mældist af makríl við Austur-Grænland í ár en í fyrra. Talið er að kalt sumar hafi hindrað makrílinn í því að ganga jafn langt vestur og áður.