föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tveir borgarísjakar undan Horni

8. mars 2012 kl. 12:57

Stærri borgarísjakinn sem var 235x100 m að flatarmáli og u.þ.b. 60 m á hæð. (Mynd/ LHG)

Annar 60 metra hár og hinn 40 metrar á hæð.

TF-SIF, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, fór í gær í eftirlits- og æfingaflug sem m.a. var nýtt til ískönnunar við Vestfirði. Þegar svæðið undan Horni var rannsakað með eftirlitsbúnaði flugvélarinnar kom í ljós að á svæðinu eru tveir borgarísjakar.

Sá minni er um 80x80 m að flatarmáli og um 40 m á hæð en sá stærri 235x100 m og u.þ.b. 60 m á hæð. Er þetta borgarísjaki sem tilkynnt var um fyrir nokkrum dögum og virðist sem hann hafi brotnað í tvennt og rekið austar á svæðið.

Þá var eitthvað um íshröngl í grennd við jakana en einnig að sjá dýpra á Hornbankanum. Hafísröndin var (skv. ratsjá) næst landi um 70 sml NNV af Straumnesi.

Stærri jakinn er á stað: 66°25,3´N-022°12,6´V eða 5,2 sjml. ASA af Horni.
Minni jakinn er á stað: 66°24,5´N-022°08,0´V eða 7,3 sjml. ASA af Horni.