föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tvö hundruð trilljón fiskmáltíðir

21. nóvember 2012 kl. 15:30

Fiskmáltíð

Breskir útvegsmenn kvarta undan einhliða og neikvæðri umfjöllun fjölmiðla um sjávarútvegsmál

Samtök útvegsmanna í Bretlandi hafa kvatt sér hljóðs til benda á mikilvægi fiskiðnaðarins fyrir breskt samfélag. Þar á bæ ofbýður mönnum einhliða umfjöllun fjölmiðla um sjávarútvegsmál. Samtökin segja að iðulega vanti í fréttir fjölmiðla um áhrif fiskveiða á umhverfið hvert framlag fiskiðnaðarins sé fyrir fæðuöryggi þjóðarinnar.

Í yfirlýsingu frá samtökunum segir: „Stundum reynist nauðsynlegt að segja hið augljósa; fiskveiðar framleiða fisk og fiskur er fæða fólks. Frá lokum seinni heimsstyrjaldar hafa fiskveiðar Breta útvegað hráefni í 200 trilljón máltíðir.“ Trilljón er milljón milljarðar.

Samtökin kvarta undan því að opinber umræða um fiskveiðar og umhverfisáhrif þeirra fari fram í tómarúmi. Hún taki ekkert tillit til mikilvægi greinarinnar fyrir fæðuöryggi. Ennfremur fái greinin enga viðurkenningu fyrir þá hollustu sem hún leggur fólki til. Fjölmiðlaumfjöllunin eigi frekar að snúast um hvernig hægt sé að lágmarka umhverfisáhrif af nauðsynlegri starfsemi sem þjóðin njóti góðs af.

„Með fáeinum heiðarlegum undantekningum draga helstu fjölmiðlar upp neikvæðar staðalímyndir. Ef fiskur er nefndur er hann sagður ofveiddur, komi fiskiskip við sögu er það að ryksuga miðin, togarar heita verksmiðjuskip (neikvætt orð), útgerðarmönnum er lýst sem gráðugum, skammsýnum heimskingjum sem séu staðráðnir í því að eyðileggja umhverfi sjávar,“ segir ennfremur í yfirlýsingu frá Samtökum útvegsmanna í Bretlandi.