laugardagur, 25. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Um 2.000 manns í selaskoðunarferðir á Hvammstanga

13. ágúst 2018 kl. 13:35

Eðvald Daníelsson, skipstjóri á Brimli. MYND/ÞORGEIR BALDURSSON

15 mínútna stím út í sellátur


Brimill HU 18 er 24 tonna eikarbátur sem er gerður út frá Hvammstanga og flytur ferðamenn að sellátrum í Miðfirði. Eðvald Daníelsson, framkvæmdastjóri Selasiglingar ehf., réðst í þetta verkefni ásamt fleirum árið 2010 og eru skoðunarferðirnar nú fastur liður í afþreyingu fyrir ferðamenn á Hvammstanga.

gugu@fiskifrettir.is

Brimill HU á sér talsverða sögu. Smíði skipsins hófst í Vestmannaeyjum árið 1972. Var hann smíðaður fyrir Friðgeir Höskuldsson útgerðarmann á Drangsnesi og hét upphaflega Grímsey. Þegar smíðin stóð sem hæst hófst eldgos í Heimaey sem varð til þess að skipið var tekið í sundur og flutt upp á land. Lokið var við smíðina í Kópavogi. Brimill er systurskip Falds ÞH frá Húsavík sem var kominn lengra áleiðis í smíðinni í Vestmannaeyjum og náðist að draga hann að fastalandinu. Friðgeir gerði Grímsey út í nokkur ár en báturinn var þá seldur til Ísafjarðar og hét þar lengst af Gissur hvíti. Þar var hann meðal annars gerður út á rækju og um skeið var hann hrefnuveiðibátur.

Selasigling keypti bátinn árið 2010 og breytti honum í farþegabát.

90 dýr í sellátrunum

„Reksturinn hefur verið heilmikil barátta því gengið er alltaf á uppleið,“ segir Eðvald en langstærstur hluti viðskiptavinanna eru erlendir ferðamenn. Það taki langan tíma að byggja upp starfsemi af þessu tagi. Aukning varð þó á farþegafjölda í sumar.

„Við erum svo lánsamir að hér í Miðfirðinum eru selalátur sem gera þennan rekstur mögulegan því það yrði of langt að fara héðan út með Vatnsnesi. Til þess hefði líka þurft stærri bát. Þegar við byrjuðum 2010 voru um 90 dýr í sellátrunum en síðan fækkaði þeim alveg niður í um 60 dýr. Nú er svo komið að undanfarin tvö til þrjú ár er hópurinn aftur kominn upp í um 90 seli. Sveiflan hér er því ekki einungis niður á við heldur farið upp aftur,“ segir Eðvald.

15 mínútna stím er út í sellátrin og alls tekur ferðin um eina og hálfa klukkustund. Farnar eru þrjár ferðir á dag þegar veður leyfir. Leyfi er fyrir 30 farþegum. Báturinn er ekki yfirbyggður og segir Eðvald það hluta af upplifun ferðamanna að finna dálítið fyrir volkinu. Ferðirnar hefjast 15. maí og standa út september. Að jafnaði hefur fjöldinn sem hefur sótt í selaskoðunarferðirnar verið um 2.000 manns yfir sumarið.

Unglingadeild og mæðraorlof

Sumir þeirra sem fara með Brimli hafa aldrei farið á sjó áður og aldrei séð sel. Eðvald segir upplifun þeirra sterka. Við góðar aðstæður kemst báturinn mjög nálægt selunum. Fyrstu tvær til þrjár ferðirnar á voru láta þeir sig hverfa í djúpið en síðan verður báturinn og koma hans í sellátrin hluti af tilveru selasamfélagsins. Kæpingartíminn hefst 22. maí ár hvert og segir Eðvald nærri hægt að stilla klukkuna eftir því hvenær fyrsti kópurinn lítur dagsins ljós. Þá getur verið leikur í þeim og þeir liggja líka á spena. Kæpingin stendur yfir í eina viku og eru kóparnir á spena í 5-6 vikur. Þá yfirgefur urtan kópana. Á þessum tíma tognar ævintýralega úr þeim og margir orðnir jafnstórir móðurinni þegar hún fer hún norður í fjörðinn og leggst þar inn í litla vík og tekur sitt mæðraorlof í heilan mánuð.

„Hér eru líka svæði sem við köllum unglingadeildina. Þar halda sig fyrsta árs kópar og upp í þriggja ára og þar getur verið líf í tuskunum. Þeir slást um steinana sem þeir vilja liggja á og eru mjög vanafastir.“