föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Undanþágum til starfa á sjó fækkar

13. desember 2011 kl. 16:27

Skipstjórnarmaður í brúnni. (Mynd: Kristinn Benediktsson).

Margir skipstjórnar- og vélstjórnarmenn hafa snúið aftur á sjóinn.

Þegar tölur fyrir umsóknir um undanþágur til að starfa sem skipstjórnar- og vélstjórnarmenn á íslenskum skipum eru skoðaðar fyrir fyrstu 9 mánuði ársins kemur í ljós að umsóknum um undanþágur hefur fækkað um rúm 20%.  

Á tímabilinu janúar-september bárust 66 umsóknir um undanþágu til skipstjórnarstarfa; 60 þeirra voru samþykktar og 6 var hafnað. Á sama tímabili á árinu 2010 höfðu borist 94 umsóknir, 71 voru samþykktar og 23 hafnað. Umsóknum um undanþágur fækkaði því um 30%.

Á tímabilinu janúar-september bárust 225 umsóknir um undanþágu til vélstjórnarstarfa; 221 þeirra voru samþykktar og 4 var hafnað. Á sama tímabili á árinu 2010 höfðu borist 273 umsóknir, 254 voru samþykktar og 19 hafnað. Umsóknum um undanþágur fækkaði því um 18% á tímabilinu. 

Ástæður þess að undanþáguumsóknum hefur fækkað eru fyrst og fremst þær að nú er síður skortur á réttindamönnum, enda er aðeins heimilt að veita undanþágur þegar skortur er á réttindamönnum. Margir skipstjórnar- og vélstjórnarmenn hafa endurnýjað atvinnuskírteini sín og komið aftur til starfa til sjós, enn aðrir hafa leitað sér menntunar eða bætt við sig skipstjórnar- og vélstjórnarmenntun. Fyrir hrun var orðið algengt að erlendir hásetar og vélstjórar leituðu fyrir sér um störf á íslensk fiskiskipum í gengum áhafnaleigur, það hefur breyst og heyrir það nú til undantekninga.

Frá þessu er skýrt á vef Siglingastofnunar Íslands.