sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Unga fólkið er sérstakur markhópur

Svavar Hávarðsson
3. júlí 2018 kl. 13:40

Guðbrandur Benediktsson er safnstjóri. Mynd/HAG

Sjóminjasafnið í Reykjavík hefur opnað nýja glæsilega grunnsýningu sem ber heitið Fiskur & fólk – sjósókn í 150 ár

Eftir stutta lokun opnaði Sjóminjasafnið í Reykjavík dyr sínar að nýju fyrr í þessum mánuði með tveimur nýjum og glæsilegum sýningum. Ný grunnsýning var fjögur ár í undirbúningi og uppsetningu og  ber yfirskriftina Fiskur & fólk – sjósókn í 150 ár. Sérsýningin Melckmeyt 1659 fjallar um fornleifarannsókn neðansjávar á hollensku kaupskipi sem fórst við Flatey á 17. öld.

Eins og nafn nýju grunnsýningarinnar ber með sér fjallar hún um sögu fiskveiða á Íslandi, allt frá því að árabátar viku fyrir stórskipaútgerð á síðustu áratugum 19. aldar og allt fram yfir aldamótin 2000. Sú leið var farin að segja söguna frá sjónarhóli stærsta útgerðarbæjar landsins, Reykjavíkur. Sýningin er sett fram á gagnvirkan og lifandi hátt með gripum og textum, myndum og leikjum.

Aðalpersónan er fiskurinn

Sýningin Fiskur & fólk hverfist um aðalpersónu þessarar sögu: Fiskinn sjálfan. Þannig er honum fylgt eftir úr hafinu, um borð í bátinn og að landi, í gegnum vinnslu – og loks á diskinn, segir í kynningartexta safnsins. Það er því viðeigandi að umgjörð sýningarinnar á safninu við Grandagarð í Reykjavík hýsti áður blómlega fiskvinnslu Bæjarútgerðar Reykjavíkur.

Guðbrandur Benediktsson, safnstjóri Borgarsögusafns Reykjavíkur, segir að fjögur ár séu liðin síðan undirbúningur nýju sýningarinnar hófst.

 

„Þessi nýja sýning er afar metnaðarfullt verkefni, enda efniviðurinn ekki lítill og hann er okkur gríðarlega mikilvægur. Við fórum þá leið að vinna með hollensku fyrirtæki sem sérhæfir sig í gerð sýninga og kom fyrirtækið að bæði gerð handritsins okkar, en ekki síst hönnun sýningarinnar og gerð miðlunar. Við erum afar ánægð með þá vinnu og nú þegar sýna viðbrögð gesta okkar að þeir kunna sannarlega að meta bæði efnið og framsetninguna. Þá ber líka að hafa í huga, að þó þessi sýning sé bundin við sjálft húsið, þá myndar safnið sjálft og allt nærumhverfið afar sterka og skemmtilega heild. Við tölum stundum um þetta sem okkar eiginlega sögusvið, það er Vesturbugtin með varðskipið Óðinn og dráttarbátinn Magna, sem eru sannarlega hafnarprýði og slippurinn í bakgrunni,“ segir Guðbrandur og bætir við að Grandinn hefur allur verið í mikilli uppbyggingu og segja megi að þetta sé að verða eitt mest spennandi svæði borgarinnar, iðandi mannlíf og kröftug atvinnustarfsemi á sviði sjávarútvegs.

Á pari við systursöfn

Sjóminjasafnið í Reykjavík var formlega stofnað árið 2004 og opnaði sína fyrstu sýningu í júní 2006. Árið 2008 bættist Varðskipið Óðinn við í safnkostinn og liggur það nú við bryggju safnsins og síðar lóðsinn Magni, sem er fyrsta stálskipið sem smíðað er á Íslandi og þjónaði Reykjarvíkurhöfum um áratuga skeið. Árið 2014 var Sjóminjasafnið sameinað öðrum borgarsöfnum sem hafa með sögu Reykjavíkur að gera undir nafninu Borgarsögusafn Reykjavíkur.

Guðbrandur segir að Borgarsögusafn Reykjavíkur sé mjög stórt safn á íslenskan mælikvarða og á pari við systursöfn þess á Norðurlöndunum. Sjóminjasafnið er hluti af Borgarsögusafni, ásamt Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Landnámssýningunni í Aðalstræti, Viðey og Árbæjarsafni.

„Því má segja að Borgarsögusafnið nái vel yfir sögu borgarinnar, allt frá sveitinni í Árbæ til sjávarsíðunnar hér við Grandann. Og tímabilið er líka langt, allt frá landnámi til nútímans. Fyrir skemmstu bættist svo undir hatt Borgarsögusafns nýtt hús, ef svo má að orði komast, nefnilega elsta hús miðbæjarins, Aðalstræti 10. Þar voru í maí opnaðar sýningar en á næsta ári er ráðgert að opna nýja og mikla sýningu sem verður í beinu framhaldi af Landnámssýningunni og varpar ljósi á þróun byggðar í Reykjavík til samtímans,“ segir Guðbrandur.

Að ná til sem flestra

Það var eitt af meginmarkmiðum Borgarsögusafns við stofnun þess, að endurnýja grunnsýningu Sjóminjasafnsins, með áherslu á sjósókn.

„Sjávarútvegur er mikilvægur þáttur í allri sögu okkar Íslendinga, sjósókn og nábýlið við hafið hefur mótað okkur sem samfélag, efnahagslega og ekki síður menningarlega. Það má e.t.v. segja að hafið sé okkur í blóð borið. En staðreyndin er hins vegar sú að úr grasi vaxa sífellt nýjar kynslóðir sem hafa lítil tengsl við þetta mikilvæga svið og að sama skapi litla þekkingu og jafnvel lítinn áhuga. Þegar við veltum fyrir okkur markhóp þessarar sýningar, eða viðtakendum gerðum við okkur grein fyrir að við þyrftum að ná til þessa hóps, unga fólksins og koma sögu okkar á framfæri við þau á markvissan hátt, en þó efnisríkan. Og án þess við tala á nokkurn hátt niður til þeirra gesta okkar sem þekkja sögu sjávarútvegs, þá sem við köllum hluthafa í sögunni,“ segir Guðbrandur og bætir við að efnistök sýningarinnar taki mið af þessu, bæði varðandi hönnun og ekki síður gagnvirka margmiðlun.