þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Uppsetning hafin á íslenskri uppsjávarverksmiðju á Kúril-eyjum

Guðjón Guðmundsson
7. október 2018 kl. 14:00

Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans 3X, á bás Knarr samsteypunnar. MYND/GUGU

Fyrirspurnir borist frá Japan

„Það mun gerast mikið í Rússlandi á næstu árum, svo mikið er víst,“ segir Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans 3X þegar Fiskifréttir náðu að króa hann af á bás Knarr samsteypunnar á sjávarútvegsssýningunni í Pétursborg. Þríeykið Skaginn 3X, Kælismiðjan Frost og Rafeyri, hafa náð risasamningum um smíði uppsjávarverksmiðja í Austur-Rússlandi og innan Knarr samsteypunnar sér Skaginn 3X fram á góða verkefnastöðu á erlendri grundu. Fyrirspurnir hafa borist frá Japan um tæknilausnir þessara fyrirtækja.

Ingólfur segir að þó ekki væri nema vegna alls þess magns af fiski sem er í sjónum í kringum Rússland séu tækifærin í raun á hverju strái þar. Útgefinn kvóti er 4 milljónir tonna og endurnýjun á skipum og vinnslu er farin í gang á grunni svokallaðs fjárfestingakvóta rússneskra stjórnvalda.

Risaáætlanir um fiskeldi

„Rússar eru líka með risaáætlanir um fiskeldi. Þeir ætla að margfalda það magn eldisfisks sem þeir framleiða í dag. Þess vegna er framundan stóraukin vinnsla bæði á villtum fiski og eldisfiski og þetta kallar á tæki og tól. Við komum inn sterkir saman undir merkjum Knarr. Það er betra að vinna að verkefnum að þessu tagi sem ein heild. Hjá Knarr erum við í raun að gera það sama og Skaginn 3X, Frost og Rafeyri hafa gert í stærri verkefnum í uppsjávargeiranum, til að mynda í Færeyjum, fyrir tíma Knarr. Hugmyndin að baki Knarr er í rauninni stækkuð mynd af því samstarfi,“ segir Ingólfur.

Sem fyrr segir vinna Skaginn 3X, Frost og Rafeyri að uppsetningu á uppsjávarverksmiðjum á Kúril-eyjum og Kamtsjatka. Stærðargráðan er eins og hún verður hvað mest. Afkastageta verksmiðju Gidrostroy á Kúril-eyjum verður 800 tonn á sólarhring af síld sem gengur við eyjarnar í gríðarlegu magni. Kælismiðjan Frost og Rafeyri eru byrjuð að setja upp sinn búnað í verksmiðjuna og búnaðurinn frá Skaganum 3X er að berast til Kúril-eyja. Ingólfur kveðst búast við því að uppsetning á þeim búnaði hefjist í lok þessa mánaðar. Það tekur marga mánuði að flytja búnaðinn frá Íslandi til Kúril-eyja.

Meira í farvatninu

Knarr Russia, dótturfélag Knarr samsteypunnar, hefur haldið utan um þjónustu- og söluhlutann af verkefnum fyrirtækjanna þriggja, líkt og fyrir móðurfélagið, Knarr Maritime. Ingólfur segir að Knarr Russia verði að vissu leyti grunnstoðin fyrir áframhaldandi landvinnsluverkefni í Rússlandi. Framkvæmdastjóri Knarr Russia er Jónas Tryggvason sem hefur búið og starfað um margra ára skeið í Rússlandi.

Verksmiðjan í Petropavlosk á Kamtsjatka í eigu Lenin Kolkhoz verður ólík þeirri á Kúril-eyjum. Í henni verður auk uppsjávartegunda unninn alaskaufsi og villtur lax. Hún er stærri og dýrari í uppsetningu. Ráðgert er að vinnsla hefjist í byrjun árs 2020 en verksmiðjan á Kúril-eyjum fer í gang fyrri part 2019. Samningar fyrirtækjanna þriggja eru samtals upp á um þrjá milljarða króna á hvorum stað.

Ingólfur segir meira í farvatninu. „Við erum að reyna að selja búnaðinn okkar út um allan heim og það er alltaf að detta inn einhverjir samningar þótt þeir séu ekki af þessari stærðargráðu. En mér líst vel á framtíðina hérna í Rússlandi og hér eru mörg tækifæri. Mér finnst líka skemmtilegt að vinna í þessu landi. Tæknileg staða íslenskra fyrirtækja er ein sú fremsta í heimi og við eigum möguleika hér vegna þess að við höfum eitthvað fram að færa. Mér finnst mikil vitundarvakning hér í Rússlandi sem snýr jafnt að því að nýta auðlindina betur og ná betri gæðum.  Fjárfestingarkvóti rússneskra stjórnvalda hefur síðan búið til tækifæri fyrir uppbyggingu og endurnýjun í sjávarútvegi.“

Samstarf í austri

Talsverða athygli vakti þegar mynd af Vladimir Pútín Rússlandsforseta og Xi Jinping Kínaforseta birtist í rússneskum fjölmiðlum degi áður en sjávarútvegssýningin hófst þar sem þeir virtu fyrir sér módel af uppsjávarverksmiðjunni á Kúril-eyjum.

„Mér finnst það mjög merkilegt sem er að gerast í þessum heimshluta þar sem Rússar, Kínverjar, Kóreumenn og Japan eru farnir að starfa saman á þessu svæði. Þarna austurfrá eru gríðarleg tækifæri með allan þennan fisk og stuttar leiðir eru út á markaðinn, til dæmis til Japans. Í þessum heimshluta eru kannski stærstu tækifærin fyrir okkur. Við höfum gert ýmislegt til þess að láta vita af okkur og við búum auðvitað að því að uppsjávarverksmiðjurnar okkar eru orðnar það tæknilega sterkar að þær vekja athygli alls staðar. Það sem myndi opna okkur leið inn á þennan markað væri tæknistigið sem við höfum náð saman, þ.e.a.s. Skaginn 3X, Frost og Rafeyri, til þess að geta boðið fram heildstætt kerfi í uppsjávarfiski. Það eitt og sér hefur orðið útflutningsvara fyrir okkur og við höfum stöðugt farið lengra með þetta. Til gamans má nefna að farnar eru að berast fyrirspurnir frá Japönum um verksmiðjur til Japans, einnar mestu tækniþjóðar heims. En tæknin sem við búum yfir í uppsjávarfiski, sem við erum stöðugt að færa yfir í aðra geira, er grunnurinn. Við erum að ná að spegla það yfir í nýja markaði og nú höfum við stigið stórt skref undir merkjum Knarr inn í bolfiskvinnsluna með þessum nýju tækniskipum,“ segir Ingólfur. Knarr hefur, sem kunnugt er, náð samningum við rússneska útgerðarrisann Norebo um smíði á tíu skipum.