þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Útflutningsmet í norskum sjávarafurðum

5. júlí 2011 kl. 11:54

Norskur saltfiksur í verslun erlendis.

Útflutningurinn jókst um 1,9 milljarða NOK á fyrstu sex mánuðum ársins

Útflutningsverðmæti norskra sjávarafurða nam um 25,9 milljörðum norskra króna á fyrstu sex mánuði ársins, eða sem samsvarar 630 milljörðum íslenskra króna. Þetta er um 1,9 milljarða NOK aukning frá sama tíma í fyrra. Hér er um met að ræða því aldrei fyrr hafa norskar sjávarafurðir skilað jafnmiklum tekjum á fyrri árshelmingi og nú, að því er fram kemur á vef IntraFish. Þessi góði árangur náðist þrátt fyrir samdrátt í júní en vöxtur hafði verið fyrstu fimm mánuði ársins.

Lax er sem fyrr verðmætasta sjávarafurð Norðmanna. Á fyrstu sex mánuðum ársins voru fluttar út laxaafurðir fyrir um 15 milljarða NOK (320 milljarðar ISK) sem er 1,2 milljarði meira en á sama tíma í fyrra.

Saltaður þorskur skilaði 712 milljónum NOK (15 milljörðum ISK) sem er 26% aukning. Saltaður og þurrkaður fiskur gaf 1,6 milljarða (34 milljarðar ISK). Aldrei fyrr hefur verið flutt jafnmikið af þessari afurð frá Noregi á þessum tímabili.

Norðmenn fluttu út ferskar þorskafurðir fyrir um 793 milljónir króna (17 milljarðar ISK) á fyrstu sex mánuðum ársins og er það 16% aukning. Mikil aukning varð í sölu til Spánar en Danmörk og Frakkland eru stærstu markaðir fyrir ferskan þorsk frá Noregi.

Flutt var út síld fyrir um 2,2 milljarða (47 milljarða ISK) sem er 17% aukning. Loks má nefna að útflutningur á makrílafurðum nam 758 milljónum (16 milljarðar ISK) og jókst um heil 55% frá sama tíma í fyrra.