laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Útflutningur á norskum laxi til Kína snarminnkar

24. ágúst 2011 kl. 11:55

Lax

Friðarverðlaun Nóbels draga dilk á eftir sér

Útflytjendur norskra sjávarafurða hafa búið við þröngan kost í Kína á þessu ári. Útflutningur á norskum laxi til Kína hefur minnkað um meira en helming og útflytjendur glíma einnig við erfiðleika við tollafgreiðslu. Ástæðan er veiting friðarverðlauna Nóbels í fyrrahaust.

Þessar upplýsingar koma fram í Fiskeribladet/Fiskarken. Á fyrstu sjö mánuðum þessa árs hafa aðeins verið flutt út 2.143 tonn af ferskum laxi til Kína á móti 5.410 tonnum á sama tíma í fyrra. Glíman við tollverði er mun erfiðari en áður. Það tekur fyrirtækið Norway King Crab til dæmis þrefalt lengri tíma að koma vörum sínum í gegnum tollinn í Kína en í fyrra.

Talsmaður Norway King Crab segir að viðmót Kínverja hafi gjörbreyst þegar kínverski andófsmaðurinn Liu Xiaobo fékk friðarverðlaun Nóbels fyrir tilstilli Norðmanna. Til dæmis opni kínverskir tollverðir nú hvern einasta gám og skoði hann gaumgæfilega. Við það verði miklar tafir. Áður fyrir gekk tollafgreiðslan mun hraðar. Nú taka tollverðir sér alltaf um 6-12 klukkustundir að afgreiða sendingu sem tók þá 2-3 tíma áður.

Árið fór sérstaklega illa af stað. Í febrúar seldur Norðmenn aðeins 78 tonn af eldislaxi á móti 783 tonnum í febrúar í fyrra. Útflutningur hefur aukist síðan en langt í frá nógu mikið.

Á sama tíma og sala á norskum laxi minnkar um helming í Kína hefur eldislax frá Kanada og Skotlandi fyllt í skörðin. Skoskir laxeldismenn segja að þeir hafi ekki lent í neinum vandræðum með að fá vöru sína tollafgreidda og skoskur eldislax selst nú sem aldrei fyrr í Kína.