föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Úthafskarfastofninn minnkar enn

24. september 2015 kl. 15:18

Úthafskarfaveiðar á Þerney RE. (Mynd: Hjalti Gunnarsson).

ICES leggur til að veiði á neðri stofni úthafskarfa verði minni en 10 þúsund tonn árið 2016

Niðurstöður mælinga á úthafskarfa í Grænlandshafi og ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) liggja nú fyrir. Stofninn er áætlaður um 200 þúsund tonn sem er rúmlega 80 þúsund tonnum minna en mældist árið 2013. Þetta kemur fram í frétt á vef Hafrannsóknastofnunar. 

Alþjóðahafrannsóknaráðið telur að vegna mjög neikvæðrar þróunar í vísitölum stofnstærðar á undanförnum árum sé nauðsynlegt að draga úr sókn, þar sem hún hefur verið langt umfram afrakstursgetu stofnsins. Í ljósi þessa hefur Alþjóðahafrannsóknaráðið lagt til að heildarafli úr neðri stofni úthafskarfa verði minni en 10 þús. tonn árið 2016, sem er sama ráðgjöf og fyrir árið 2015. Jafnframt leggur ráðið til að ekki skuli stunda beinar veiðar úr efri stofni úthafskarfa vegna mjög neikvæðrar þróunar á stofnstærð.

Í júlí síðastliðnum lauk sameiginlegum leiðangri Íslendinga og Þjóðverja sem farinn hefur verið annað hvert ár í Grænlandshaf og aðliggjandi hafsvæði síðan árið 1999. Megin tilgangur leiðangursins var að meta stofnstærðir tveggja stofna karfa í úthafinu. Til stóð að Rússar tækju líka þátt í leiðangrinum, en þeir drógu sig út mánuði áður en hann hófst. Var því einungis hægt að meta stofnstærð neðri stofn úthafskarfa.

Neðri stofn úthafskarfa, sem er að finna á meira en 500 m dýpi, var metinn með trollaðferð þar sem ekki er hægt að mæla hann með bergmálsmælum. Mat á magni neðri stofns úthafskarfakarfa, byggt á þeirri aðferð, var áætlað um 200 þúsund tonn sem er rúmlega 80 þúsund tonnum minna en mældist árið 2013. Mælingin í ár er sú lægsta síðan mælingar hófust árið 1999 og hefur farið úr rúmri einni milljón tonna árið 2001. Mest fékkst af neðri stofni úthafskarfa á norðausturhluta rannsóknasvæðisins við mörk íslensku efnahagslögsögunnar.