sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Úthafskarfi 2008: Óbreytt aflamark en breytt stjórnun veiða

4. apríl 2008 kl. 15:47

Aflamark íslenskra skipa í úthafskarfa á árinu 2008 hefur verið ákveðið, að því er fram kemur á vef Fiskistofu.

Heildaraflamarkið er óbreytt frá fyrra ári, eða 21.083 tonn, en stjórn veiðanna verður með nokkuð öðrum hætti en verið hefur undanfarin ár. "Innra veiðisvæðið" stækkar nokkuð, en nú nær það suður að 59° N og vestur að 36° V. Svæðið innan íslenskrar lögsögu er óbreytt.

Fram til 10. maí er íslenskum skipum heimilt að veiða 30% af heildaraflamarkinu, eða 6.325 tonn, á innra svæðinu, en 11. maí eykst heimildin um 35% af heildaraflamarkinu, eða 7.379 tonn, og veiðitíminn framlengist til 15. júlí.

Þannig er heimilt að veiða 65% af heildaraflamarkinu, eða 13.704 tonn, á innra svæðinu, en eftir 15. júlí eru veiðar óheimilar á því svæði. 35% af heildaraflamarkinu, eða 7.379 tonnum, verður úthlutað til veiða sunnan 59° N og vestan 36° V, en einnig er heimilt að veiða, að hluta eða í heild, á því veiðisvæði það aflamark sem úthlutað er á innra svæðinu.

Fiskistofa mun fljótlega úthluta aflamarki í úthafskarfa.