miðvikudagur, 23. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Úthlutun byggðakvóta í lamasessi

10. september 2020 kl. 16:00

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.

Smábátaeigendur munu ekki sitja auðum höndum næstu mánuðina frekar en endranær í baráttu fyrir aukinni hlutdeild í 5,3% pottinum, segir framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.

Það er mín skoðun að þær veiðiheimildir sem koma í hlut byggðarlaga gegnum byggðakvóta og Fiskistofa úthlutar til einstakra skipa séu stórlega vannýttar.  Samkvæmt stöðuskjali á heimasíðu Fiskistofu þann 25. ágúst sl. höfðu innan við 30% heimilda á fiskveiðiárinu 2019/2020 komið til úthlutunar.

Ráða ekki við verkefnið

Við leit að skýringum hvers vegna sú staða blasti við voru svörin ýmist þau að reglur frá einstaka byggðarlögum hefðu skilað sér seint og illa, jafnframt sem væntanlegir handhafar byggðakvóta væru ekki búnir að uppfylla skilyrði til úthlutunar.  Auk þessa væru kærumál í gangi og af þeim sökum hefði úthlutun verið stöðvuð.

Á áðurnefndu skjali kemur fram að hvorki fleiri né færri en 45 byggðarlög fengu hlutdeild í 6.855 þorskígildistonna byggðakvóta.  Að koma því til skila hefur gengið illa, sem marka má af því að aðeins um tvöþúsund tonnum hafði verið úthlutað á fiskveiðiárinu þegar sex dagar voru eftir af því.  Með öðrum orðum voru óveidd 4.300 tonn af þorski – rúm 70%.

Af þessu er hægt að draga þá ályktun að umfang sé of mikið, reglur flóknar og erfitt að uppfylla skilyrði til að fá úthlutun.  Úthlutun dregst því von úr viti eins og samantektin ber með sér.

Reglur segja til um að ónýttar heimildir færist yfir á næsta ár og koma þær því til viðbótar við það sem ætlað er í þennan flokk á yfirstandandi fiskveiðiári.

Fái allan byggðakvótann

Landssamband smábátaeigenda hefur í nokkur ár gagnrýnt þessa ráðstöfun sem og að byggðakvóta sé úthlutað til stærri skipa.  Tillögur LS miða að því að efla útgerð smábáta og gera kerfið einfaldara.  LS hefur komið sjónarmiðum sínum á framfæri við sjávarútvegsráðherra og þær nefndir sem skipaðar hafa verið til að fjalla um þetta málefni.  Í bréfi til starfshópsins þann 30. október 2019 ítrekaði LS sjónarmið sitt varðandi byggðakvótann:

Heimildir til byggðakvóta verði skilyrtar til sveitarfélaga samkvæmt reglum sem mótaðar hafa verið.  Rétt til nýtingar byggðakvóta hafa útgerðir dagróðrabáta sem skráðar eru í viðkomandi byggðarlagi og bátar í þeirra eigu sem skráðir eru með heimahöfn í byggðarlaginu og stunda dagróðra þaðan, enda hafi viðkomandi uppfyllt framangreint á næstliðnu fiskveiðiári.

Úthlutun:

Með ívilnun á aflaheimildir við löndun með sama hætti og um línuívilnun sé að ræða.

10 tonnum í upphafi hvers fiskveiðiárs til útgerða þar sem eigandi hennar hefur átt heimilisfesti í byggðarlaginu sl. 10 ár.

Sala afla:

Fiskvinnsla í viðkomandi byggðarlagi hefur forkaupsrétt að afla þeirra báta sem njóta byggðaívilnunar.  Greitt verði meðaltalsverð sem fæst á nærliggjandi fiskmörkuðum á löndunardegi.  Greiðslufyrirkomulag og greiðslutrygging skal vera með sama hætti og hjá aðilum sem kaupa af fiskmörkuðum.

Þar sem ekki er fiskvinnsla skal aflinn boðinn upp á fiskmarkaði.

Tillögur LS ekki í frumvarpinu

Í samráðsgátt stjórnvalda er nú til athugasemdar frumvarp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem varða ráðstöfun á aflaheimildum sem ríkið er með forræði yfir (5,3%).  Í kynningu segir að breytingar sem þar eru lagðar til séu byggðar á tillögum sem fram komu í skýrslu starfshóps um endurskoðun á meðferð og ráðstöfun þeirra.

Þrátt fyrir vandræðaganginn sem ríkt hefur við úthlutun og allt umfangið eru tillögur LS virtar af vettugi.  Smábátaeigendur munu því ekki sitja auðum höndum næstu mánuðina frekar en endranær í baráttu fyrir aukinni hlutdeild í 5,3% pottinum.

Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda