laugardagur, 31. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vantar æti fyrir sladdann

11. febrúar 2011 kl. 09:06

Steinbítur. Mynd: Einar Ásgeirsson

Gætum prófað að stöðva loðnuveiðar í 3 ár eins og gert var í Barentshafi

Ísfisktogarinn Stefnir ÍS hefur verið á steinsbítsveiðum í haust og vetur. Pétur Birgisson, skipstjóri á Stefni ÍS, segir í samtali við Fiskifréttir að veiðarnar  hafi verið öðruvísi en oftast áður. ,,Steinbíturinn er dreifðari og hann þjappar sér ekki saman eins og svo oft áður því ætið fyrir hann vantar. Alltof mikið hefur verið veitt af loðnunni,“ segir Pétur.

Pétur nefnir að hér áður fyrr hafi mikil loðna verið uppi á grunnunum fyrir vestan í febrúar og mars og steinbíturinn, eða sladdinn eins og hann er gjarnan kallaður, hafi þá haft nóg æti. ,,Allt er líflaust þegar loðnuna vantar. Við getum ekki ætlast til þess að hægt sé að byggja upp þorskstofninn eða steinbítsstofninn án þess að hafa loðnu í sjónum. Við þurfum að hætta veiðum á loðnu. Við gætum til dæmis prófað að stöðva loðnuveiðar í 3 ár eins og gert var í Barentshafi. Í kjölfar þess varð mikil breyting til batnaðar á lífríkinu í Barentshafi, bæði hvað loðnu og þorsk varðar,“ segir Pétur.