sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Var hótað lífláti í gegnum símann

22. desember 2011 kl. 12:18

Forsíða BB

Matthías Bjarnason fyrrum sjávarútvegsráðherra ræðir um feril sinn í viðtali við Bæjarins besta

Matthías Bjarnason, fyrrum þingmaður Vestfirðinga og ráðherra, segist vera sérstaklega ánægður með að hafa stuðlað að því að landhelgin var færð út í 200 mílur en hann skrifaðir undir reglugerðina sem færði hana út 15. júlí 1975 þar sem hann var sjávarútvegsráðherra. Þetta kemur fram í viðtali við Matthías í Bæjarins besta í dag þar sem hann er spurður hvað standi hæst að hans mati á ferli hans. „Ég held að það hafi verið mikilvægasta ákvörðunin sem ég tók á mínum stjórnmálaferli og hún var afskaplega farsæl fyrir þjóðina eins og allir vita núna. Það er auðvitað rangt að segja það að allir hafi verið sammála um þá framkvæmd,“ segir Matthías.

Á vef BB er birtur útdráttur úr viðtalinu við Matthías. Í viðtalinu segir hann jafnframt á fundi í Ósló þar sem norskur utanríkisráðherra, Knut Frydenlund, sem leysti þann hnút á endanum með Íslendingum og Bretum í þorskastríðinu viðfræga. „Ég var nú ekkert sérlega hrifinn af Norðmönnum. Þeir voru alltof mikið fyrir sjálfa sig. Undantekning frá þessu var Knut Frydenlund sem var afskaplega vænn maður og góður vinur Íslendinga. Hann var hvatamaður að því að leysa deiluna á fundi sem haldinn var með Bretum í Osló en þar hittum við Anthony Crosland, utanríkisráðherra Bretlands. Þá ríkti ekkert stjórnmálasamband á milli Íslands og Bretlands.“

Stjórnarandstaðan var ekki ánægð með samninginn þegar íslensku fulltrúarnir sneru aftur frá Osló. Þetta voru kallaðir svikasamningar. „Þegar við Einar Ágústsson komum til Osló í maí 1976 var fyrst farið á hótelið og síðan beint á staðinn þar sem viðræðurnar áttu að vera. Þegar við komum að þessum stað var þar hópur sem hafði myndað talkór. Hann lýsir því yfir að við séum komnir til Noregs til að gera svikasamninga og þess vegna geti hann ekki tekið á móti okkur. Ég á enn bréfið sem þeir fengu okkur. Við fengum mikið að heyra að við værum svikarar og landráðamenn.“

Matthíasi var meira að segja hótað lífsláti í kjölfarið. „Nokkru eftir þetta sat ég einn heima við skrifborðið mitt. Síminn hringir og maður segir að hann ætli að koma og skjóta mig því ég sé landráðamaður og búinn að svíkja þjóðina. Ég sagði honum bara að koma en lét hann vita af því að ég væri með góða skammbyssu heima við: Ég skal ekki vera mjög lengi að skjóta þig, sagði ég við hann. Hins vegar hef ég aldrei skotið af byssu á ævinni, hvorki fyrr né síðar. En hann kom aldrei sá skratti.“


Í viðtali við jólablaði Bæjarins besta rekur Matthías einnig sögur af mönnum og dýrum sem settu svip á Ísafjörð á uppvaxtarárum hans og deilurnar við Davíð Oddsson.