miðvikudagur, 12. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veðurfarið var eins og það getur orðið verst

30. nóvember 2017 kl. 09:20

Frystitogarinn Blængur NK. (Mynd: Hákon Ernuson)

Aflinn í túrnum var 800 tonn upp úr sjó að verðmæti 162 milljónir króna, en meginhluti aflans var ufsi.

Frystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í gærmorgun að afloknum mettúr. Skipið hélt í veiðiferðina 1. nóvember sl. og millilandaði í Neskaupstað 14. nóvember.

Aflinn í túrnum var 800 tonn upp úr sjó að verðmæti 162 milljónir króna, en meginhluti aflans var ufsi.

Theodór Haraldsson skipstjóri segir í viðtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar að vel hafi veiðst allan túrinn en veðrið hafi hins vegar verið leiðinlegt.

„Þetta er mettúr hjá okkur bæði hvað varðar afla og aflaverðmæti. Í sannleika sagt gekk allt ótrúlega vel hjá okkur þrátt fyrir veðrið. Veðurfarið var eins og það getur orðið verst á haustin, nánast enginn dagur undir 15 metrum á sekúndu. Við vorum svo til allan tímann að veiðum út af Austur- og Suðausturlandi nema þrjá daga á Reykjanesgrunni en við flúðum þangað vegna illviðris eystra. Nánast allan túrinn vorum við í ufsa og segja má að veiðar og vinnsla hafi gengið eins og best verður á kosið. Skipið hefur ótrúlega veiðigetu og við erum yfirleitt aldrei að draga allan sólarhringinn. Þá eru menn að venjast vinnsludekkinu og gengur vinnslan býsna vel. Við erum í sannleika sagt hæstánægðir með þennan túr sem nú var að ljúka," segir Theodór.