mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veiðigjald næsta árs verður 9,46 krónur á hvert þorskígildiskíló

15. júlí 2011 kl. 15:05

Fiskveiðar

Skilar 4,5 milljörðum í ríkissjóð

Veiðigjald komandi fiskveiðiárs verður 9,46 krónur af hverju lönduðu þorskígildiskílói og er áætlað að það skili um 4500 milljónum króna í ríkissjóð. Það er umtalsverð hækkun frá yfirstandandi fiskveiðiári þar sem reiknað er með að veiðigjaldið skili um 2700 milljónum. Þetta er samkvæmt reglugerð sem sjávarútvegsráðherra gaf út í dag um veiðigjald komandi fiskveiðiárs samkvæmt nýjum lögum um stjórn fiskveiða.  

Í frétt frá sjávarútvegsráðuneytinu segir að hækkunin nú skýrist af auknum aflaheimildum og því að Alþingi ákvað með breytingum á lögum um stjórn fiskveiða að hækka gjaldið úr 9,5% í 13,3% af reiknaðri framlegð.

Þannig er veiðigjald á yfirstandandi fiskveiðiári 6,44 krónur af hverju þorskígildiskílói. Sambærileg tala árið 2004 þegar veiðigjald var fyrst innheimt var 1,99 krónur. Auk hækkunar á veiðigjaldi heimilaði Alþingi að allt að 15% af veiðigjaldi ársins rynni beint til sveitarfélaga.

Veiðigjald fiskveiðiársins 1. september 2011 til jafnlengdar 2012 er reiknað út með eftirfarandi reglu: Frá aflaverðmæti tímabils sem hófst 1. maí 2010 til 30. apríl 2011 er dreginn reiknaður olíukostnaður, launakostnaður og annar rekstrarkostnaður sama tímabils. Af þeirri framlegð sem þá stendur eftir er reiknað 13,3% gjald. Síðan er deilt í þá fjárhæð með þorskígildum sem standa að baki aflaverðmætinu sem lagt er til grundvallar útreikningnum. Með því fæst veiðigjald sem lagt verður á úthlutaðar aflaheimildir og landaðan afla á komandi fiskveiðiári, segir ennfremur í frétt frá sjávarútvegsráðuneytinu.