þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veiðigjaldið skili 18-20 milljörðum króna árlega

26. mars 2012 kl. 17:46

Þorskur í trollpoka. (Mynd: Þorgeir Baldursson)

Tekjuaukinn verður 11-13 milljarðar þegar tillit er tekið til minni tekna af tekjuskatti á móti.

Veiðigjaldið í hinu nýja fiskveiðilagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar verður tvískipt, annars vegar grunngjald sem allir greiða og er 8 krónur á hvert þorskígildiskíló, og hins vegar sérstakt veiðigjald, sem verður tengt áætlaðri rentu hvers árs og sagt er munu skila þjóðinni réttmætri auðlindarentu.

Sérstaka gjaldinu er skipt eftir afkomu bolfiskveiða annars vegar og uppsjávarveiða hins vegar og tekur það á rentu bæði í veiðum og vinnslu þótt það sé eingöngu lagt á veiðarnar. Grunngjaldið er hugsað til að standa undir stofnunum ríkisins við stjórn fiskveiða.

 Sérstaka gjaldið er sagt munu skila ríkissjóði verulega auknum tekjum miðað við núverandi afkomu í sjávarútvegi sem sé afar góð. Hið sérstaka gjald er mjög næmt fyrir afkomu greinarinnar og því sveiflast það í takt við gengi hennar. Veiði- og sérstaka veiðigjaldið mun renna óskipt í ríkissjóð. Áætlað er að veiðigjaldið skili ríkissjóði 18 til 20 milljörðum kr. árlega á næstu þremur árum en að frádregnum tekjum nú og áætlaðri lækkun tekjuskatts verði tekjuaukinn 11 til 13 milljarðar kr. á ári.

Gert er ráð fyrir að bátar upp að 30 tonn verði undanþegnir sérstöku veiðigjaldi og bátar frá 30 – 100 tonn greiði helminginn af slíku gjaldi.