miðvikudagur, 25. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veiðin dálítið sveiflukennd

Guðjón Guðmundsson
24. apríl 2020 kl. 10:00

Venus NS - uppsjávarskip Brims. Aðsend mynd

Fjöldi kolmunnaskipa suður af Færeyjum.

Í byrjun vikunnar hafði verið fremur dræm kolmunnaveiði suður af Færeyjum eftir kraftmikla byrjun. Theódór Þórðarson, skipstjóri á Venus NS, uppsjávarskipi Brims hf., sagði ágæta veiði hafa verið fyrstu þrjá sólarhringana eftir að kolmunninn gekk inn á gráa svæðið síðastliðinn föstudag.

Þá köstuðu kolmunnaskipin og fengu mörg hver góðan afla í fyrsta holli. „Nú er þetta orðið dálítið ódrjúgt. Það getur verið lóð á daginn en það skilar litlu. Lóðið kemur ofar þegar dimmir á kvöldin og þá veiðist betur. En birtutíminn hefur nýst fremur illa,“ segir Theódór.

Tekið hefur verið eitt holl á sólarhring og dregið í 15-18 klukkustundir. Theódór segir fjölda skipa hamla dálítið veiðunum. Hátt í 40 skip eru á litlum bletti og menn ekki alveg sjálfráðir ferða sinna. Auk íslensku kolmunnaskipanna er þarna fjöldi rússneskra, færeyskra og norskra skipa.

1.200 tonn í lest

Venus eins og fleiri íslensk skip voru komin á miðin upp úr 10. apríl og þar var beðið eftir að kolmunninn gengi inn á gráa svæðið. Meðan beðið var voru menn að þrífa og dytta að hinu og þessu. Veiðin gaus svo upp 17. apríl. Kolmunnakvóti Íslendinga er nú 188.500 tonn og hlutdeild Brims í honum er tæp 21% eða 47.500 tonn.

„Það hefur verið frekar erfitt við þetta að eiga. Veiðin hefur verið á fremur litlum bletti. Í var til að mynda ekkert að sjá og menn voru að draga í lóð sem virtist ekki skila neinu.“

Komin voru um 1.200 tonn í lestina og vantaði því enn um 1.500 tonn til að ná fullfermi. „Það gæti verið fljótt að koma ef við förum að hífa 400 tonn tvisvar á sólarhring. En staðan er ekki akkúrat þannig núna.“

Undanfarin ár hefur þessum veiðum verið lokið í endaðan maí og sumir reynt að teygja á þeim fram að sjómannadegi. Í fyrra landaði Venus úr fyrsta túrnum 18. apríl. Gangan er því nokkrum dögum seinna á ferðinni núna.

„Vonandi kemur kolmunninn af meiri krafti á næstu dögum. Það er mikið af fiski hérna sunnar.“

Svipað magn hráefnis og í fyrra

Megnið af kolmunnanum fer til bræðslu og skipta þessar veiðar útgerðir uppsjávarskipa miklu máli. Þannig má nefna að árið 2018 veiddust 293.000 tonn af kolmunna og var útflutningsverðmætið 11,6 milljarðar króna, eða 4,8% af heildar útflutningsverðmætum sjávarafurða.

Jóhann Pétur Andersen, framkvæmdastjóri Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda, segir að á síðasta ári hafi borist um 410.000 tonn af hráefni til mjöl- og lýsisvinnslu í landinu. Það var mikil minnkun frá árinu 2018 þegar 635.000 tonn af hráefni bárust en það skýrist af loðnubrestinum í fyrra. Jóhann segir Íslendinga ekki mikla áhrifavalda á mjölmörkuðum í heiminum. Þar ráðist verðmyndun af því hvernig veiðar á ansjósu í Suður-Ameríku ganga.

„Ég tel ekki að það dragi enn frekar úr hráefnisöflun fyrir fiskmjölsverksmiðjurnar á þessu ári. Kvótar í makríl, norsk-íslensku síldinni og kolmunna eru ekki minni en á árinu 2019. Og þetta eru hvort tveggja loðnuleysisár. Ég tel að hráefnið inn í verksmiðjurnar verði svipað á þessu ári og á því síðasta,“ segir Jóhann Pétur.