þriðjudagur, 22. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veiðir við Grænland - landar á Íslandi

Guðjón Guðmundsson
16. maí 2020 kl. 13:00

Ilivileq er glæsilegt skip á alla mælikvarða og stærð þess kemur vel fram þar sem það er bundið við Grandabryggju í Reykjavík. Mynd/Svavar

Ilivileq – eitt fullkomnasta skip í Norður-Atlantshafi.

„Siglingin heim gekk alveg prýðilega. Við vorum nákvæmlega 112 klukkustundir á siglingu frá Gijon á Spáni til Reykjavíkur, 1.400 sjómílur,“ segir Páll Þórir Rúnarsson, annar tveggja skipstjóra Ilivileq, nýs frystitogara Brims sem gerður verður út frá Grænlandi. Ilivileq er fullkomnasti frystitogarinn í íslenska skipaflotanum og sá langstærsti. Í fréttatilkynningu frá Brimi segir að skipið sé eitt það fullkomnasta í Norður-Atlantshafi.

Stjórn Brims, sem þá hét HB Grandi, samdi við skipasmíðastöðina Astilleros Armon Gijon SA árið 2017 um smíði á skipinu. Samningsupphæðin þá var fimm milljarðar króna en fullbúið má áætla að skipið kosti vel á sjöunda milljarð króna.

1.000 tonn  af afurðum í lest

Togarinn er hannaður af Rolls Royce í Noregi í samstarfi við Brim og er 81 metri að lengd og 17 metra breiður. Hann er lestarrými fyrir um þúsund tonn af frystum afurðum á brettum. Þá er fiskimjölsverksmiðja í skipinu frá vélsmiðjunni Héðni fyrir það sem fellur til við flakavinnsluna. Allur afli verður því fullnýttur og afkastageta vinnslunnar getur verið allt að 150 tonn á sólarhring.

Ilivileq er skráður í Qaquortoq í Grænlandi og er í eigu grænlenska fyrirtækisins Arctic Prime Fisheries sem er 100% í eigu Brims.

„Ilivileq er stórt og mikið skip en virkilega þægilegt í meðförum. Áhöfn skipsins var áður á Brimnesinu sem Brim gerði út og það þótti skip af stærri gerðinni, 2.800 brúttótonn. En nýja skipið er um 5.000 brúttótonn og mun öflugara.“

Aðalvélin er Bergen Diesel frá Rolls Royce, 7.500 hestöfl. Skrúfan er af stærri gerðinni og segir Páll Rúnar að eldsneytissparnaður hafi verið hafður að leiðarljósi við hönnun skipsins.

56 í tveimur áhöfnum

„Við getum valið þriggja stillinga úr brúnni og spilin eru þannig að þau framleiða rafmagn inn á rafala þegar við köstum. Siglingabúnaður og fiskleitarbúnaður er frá Simberg ehf. Allur vinnslubúnaður og flökunarvélar koma frá Vélfagi á Ólafsfirði og fiskmjölsverksmiðjan frá vélsmiðjunni Héðni þannig að íslenskt hugvit og framleiðsla skipar sinn sess í þessu skipi,“ segir Páll Þórir.

Hann segir mikla sjálfvirkni í skipinu, sérstaklega frá pökkun og ofan í lest. Skipið verður, sem fyrr segir, gert út frá Grænlandi og með svipuðu sniði og gert hefur verið þannig að aflanum verður landað á Íslandi. Tvær áhafnir verða á skipinu, samtals 56 manns, Íslendingar og Grænlendingar. Skipstjóri á móti Páli Þórði verður Guðmundur Kristján Guðmundsson. Veiðiferðirnar standa yfir í 30-40 daga og verður skipið fyrst og fremst við veiðar við Austur-Grænland. Einkum verður sótt í þorsk og grálúðu, sem er uppistaðan í kvóta skipsins, en einnig gefst því kostur á veiðum á makríl.

100% nýting afla

„Ef allt gengur upp verður 100% nýting um borð á aflanum. Við eigum þó langt í land ennþá. Það eru fjórar til fimm vikur í brottför. Það er verið að stilla af búnaðinn og ganga frá ýmsum lausum endum. Við vonumst til þess að geta komist á veiðar í júní. Kórónaveiran er ekki að flýta fyrir. Við erum að fá til okkar tæknimenn, aðallega frá Norðurlöndunum, og sóttkvíarákvæðin eru dálítið að tefja fyrir okkur. Það var líka allt harðlokað úti á Spáni en þó hafði verið mjög lítið um smit í Astúría-héraði á Spáni. Þar býr um ein milljón manns og smitin voru þó ekki nema 2.500 talsins.“