föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Veiðivottorð til að hamla gegn ólöglegum veiðum

21. september 2009 kl. 12:00

Norsk stjórnvöld undirrituðu nýlega samning við Evrópusambandið um að sérstakt veiðivottorð skuli fylgja útfluttum fiski frá Noregi inn á ESB-markaðinn. Norðmenn eru fyrsta þjóðin sem gerir slíkan samning, en þetta er liður í átaki til þess að hamla gegn því að ólöglega veiddur fiskur sé seldur á markaði í ríkjum bandalagsins.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins áætlar að 500.000 tonn af ólöglega veiddum fiski að verðmæti 168 milljarða íslenskra króna séu seld á ESB-markaðinum. 

Samningurinn milli Noregs og ESAB gerir ráð fyrir því að frá og með næstu áramótum fylgi sérstakt veiðivottorð öllum norskum fiski sem fer inn á ESB-markaðinn. Norsku sölusamtökin eru nú að undirbúa að þetta geti farið fram með rafrænum hætti á internetinu.

Norski sjávarútvegsráðherrann hefur fagnað þessu framtaki ESB í baráttunni gegn ólöglegum veiðum, en flestar þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í þessu skyni beinast að því að koma í veg fyrir að þeir sem stunda ólöglegar veiðar geti komið fiskinum á markað.