þriðjudagur, 2. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vel fylgst með næstu vikur - fá skip væntanleg

Svavar Hávarðsson
12. mars 2020 kl. 13:10

Celebrity Eclipse

Hafnalög kveða á um að skylt er að taka á móti skipum í höfn eftir því sem rými og aðstaða leyfir. Hafnarstjórn er þó heimilt að synja skipi um aðgang að höfn ef mönnum og umhverfi er talin stafa hætta af komu þess til hafnar.

Hafnaryfirvöld í Bergen, Ålesund og Stavanger hafa tekið þá ákvörðun að farþegum skemmtiferðaskipa sem þangað koma verði ekki hleypt í land. Þetta kemur fram í norskum fjölmiðlum í dag.

Við þetta vakna spurningar um viðbrögð íslenskra stjórnvalda og hvaða áhrif það gæti haft á komur þessara skipa hingað til lands – og afgreiðslu skipanna þegar hingað er komið.

Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, segir að varðandi farþegaskipin þá sé almennt í gildi það ákvæði hafnalaga að skylt sé að taka á móti skipum í höfn eftir því sem rými og aðstaða leyfir. Hafnarstjórn sé þó heimilt að synja skipi um aðgang að höfn ef mönnum og umhverfi er talin stafa hætta af komu þess til hafnar.“

„Í stöðunni í dag þá gildir neyðarstig Almannavarna - og sóttvarnarlæknir fer þá með stjórn sóttvarnarráðstafana - og síðan lögreglustjóra og/eða hafnarstjóra að fylgja ákvörðunum eftir,“ segir Gísli í viðtali við Fiskifréttir.

„Eflaust munu mál þróast áfram næstu daga og vikur og við eigum eflaust eftir að heyra betur frá skipafélögunum sjálfum,“ segir Gísli en utan þeirra tveggja skipa sem koma í mars er ekki von á farþegaskipi fyrr en í maí.  

„Augljóst er hins vegar að tryggja siglingar flutningaskipa til og frá landinu,“ segir Gísli.

Metár í fyrra

Eins og Fiskifréttir sögðu frá fyrir stuttu hafa Faxaflóahafnir aldrei tekið á móti fleiri skipum og farþegar aldrei verið fleiri en árið 2019, eða 188.630 þegar allt er talið. Fjölgun á skipakomum var 25% milli ára og fjölgun farþega um rúmlega 30%.

Farþegafjöldinn er að mestu borinn uppi af Þjóðverjum, Bretum og Bandaríkjamönnum, en svo hefur verið um langt árabil. Þjóðverjar hafa frá aldamótum verið stærsti hópurinn og í fyrra komu 48.774 þýskir ferðamenn með skemmtiferðaskipum til Íslands.

Árið 2018 var framkvæmd könnun á vegum GP Wild og niðurstöður sýna að heimsóknir farþegaskipa skiluðu 16,4 milljarða eftir sig hér á landi og um 920 heilsárs störf urðu til. Mörg þessara starfa verða til á landsbyggðinni.

Alls eru áætlaðar 187 skipakomur farþegaskipa til Faxaflóahafna árið 2020 með 203.214 farþega, samkvæmt upplýsingum frá Faxaflóahöfnum.