föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vel sóttur Verkstjórafundur

17. janúar 2019 kl. 15:30

Hátt í 50 verkstjórar sóttu fundinn að þessu sinni. Mynd/Íslenski sjávarklasinn

Verkstjórafundur Íslenska sjávarklasans var haldinn í sjötta sinn.

Verkstjórafundur Íslenska sjávarklasans var haldinn í sjötta sinn í síðustu viku, að þessu sinni, í Granda Mathöll í Húsi sjávarklasans. Mættu hátt í 50 verkstjórar úr fiskvinnslum víðsvegar að af landinu.

Í fréttatilkynningu segir að áhersla fundarins var á áskoranir stjórnandans og umhverfis- og öryggismál í fiskvinnslu og flutt voru mörg áhugaverð erindi. Meðal annars var fjallað um samstarf og samskipti á vinnustað og hvernig við fáum fólki til þess að líða vel í vinnunni. Mikilvægt er að fara yfir þessi mál þar sem skortur á samskiptum getur meðal annars haft áhrif á öryggi starfsmanna, starfsanda o.fl.

Eggert B. Guðmundsson fyrrverandi forstjóri HB Granda og N1 var sérstakur gestur fundarins og ræddi við gesti um leiðtogahæfni.

Að auki fjallaði Valgeir Magnússon, stjórnarformaður Pipar/TWA, um mikilvægi trausts, virðingu, gegnsæi og hlustun á vinnustað, því góð samvinna og andi í fyrirtækinu væri lykilatriði.

Sölvi Tryggvason, höfundur og fjölmiðlamaður, fjallaði um það hvernig almenningur horfir á vinnsluna og spunnust áhugaverðar umræður út frá þeirri umfjöllun.

Hátæknifyrirtækið Valka var sótt heim og starfssemi fyrirtækisins kynnt.

Dagskránni lauk svo með vinnustofu frá stjórnendafyrirtækinu Nolta, þar sem einblínt var á að auka tengsl á milli þátttakenda.

Verkstjórafundurinn var haldinn í samstarfi við Íslenska sjávarklasann, Völku og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.