föstudagur, 7. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vélfag á Ólafsfirði kemur víða við í nýsmíðum

6. nóvember 2017 kl. 12:00

Bjarmi Sigurgarðarsson, framkvæmdastjóri Vélfags.

Vöxturinn mestur erlendis

Vélfag hefur að undanförnu framleitt fiskvinnsluvélar í nýsmíðar í Evrópu og eru sum af þeim skipum komin á sjó og í notkun. Vélfag framleiddi búnað fyrir Sólberg EA, nýjan togara Ramma, sem kom til landsins í maí.

„Við höfum mest verið í verkefnum í tengslum við nýsmíði Þýskalandi, Frakklandi, Spáni og Noregi. Í þessum löndum stendur einnig yfir endurnýjun flotans og síðustu ár höfum við tekið þátt í mörgum verkefnum þar,“ segir Bjarmi.

Fiskvinnsluvélar frá Vélfagi fyrir skip taka við fisknum frá móttöku og afhenda hann í formi roðlausra flaka. Þá tekur við búnaður frá Völku eða Marel, þ.e. vatnskurðarvélar, sem hluta fiskinn í bita.

Vél sem flakar allt að 24 kg fisk

Vélfag hlaut Íslensku sjávarútvegsverðlaunin árið 2011 fyrir Marin 700 flökunarvélina. Síðan þá er komin ný lína af vélum sem eru tölvustýrðar og komnar í nokkuð stóran flota skipa. Með tölvustýringunni næst hámarks nýting úr hverjum fiski því búnaðurinn tekur tillit til stærðar hvers fisks og tegundar. Tölvustýring sem tekur mið af þessum þáttum eru jafnt við hausun, flökun og roðdrátt.

„Við erum líka komnir með stórfiskavél, M727, sem flakar fisk allt upp að 24 kílóum sem engin önnur vél á markaðnum gerir. En hún býr líka yfir þeim kosti að geta flakað meðalstór flök upp á um 350 grömm upp í 6 kg flök. Þar til viðbótar getur hún skipt á milli tegunda. Í háþróaðri útgáfu vélarinnar er myndgreiningartækni sem sýnir galla í fiski og kemur í veg fyrir að nýting fari niður.“

Þessi tækni hefur verið í notkun í skipum við Íslandsstrendur og í Noregi og hefur komið vel út.

Nýtt flaggskip DFFU

Vélfag hyggst koma sér fyrir með þessa nýju tækni innan landvinnslunnar á Íslandi. Markaðshlutdeildin hefur vaxið úr engu frá 2009 í um 60% markaðshlutdeild núna á móti Baader vélum.

Vélfag er með framleiðslu á Ólafsfirði og þróunaraðstöðu á Akureyri. Stór hluti framleiðslunnar er úthýstur til fyrirtækja eins og Geislatækni, Míkró, Slippsins og fleiri.

„Við einbeitum okkur að því sem við erum bestir í en fáum aðra til samstarfs á öðrum sviðum.“

Meðal erlendra skipa sem eru með vélar frá Vélfagi er frystitogarinn Kirkella sem er í eigu UK Fisheries, dótturfyrirtæki Samherja. Um borð er allt að 2.500 tonna afli hausaður og flakaður um borð í hverjum mánuði og vélarnar því stöðugt að.

Fram í janúar á næsta ári verða fjögur ný skip sjósett í Evrópu sem eru með fiskvinnsluvélar frá Vélfagi, þar á meðal nýtt flaggskip Deutsche Fiscfang Union, dótturfyrirtæki Samherja.