mánudagur, 8. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verkmenntaskólinn fær kennslubúnað að gjöf

30. nóvember 2020 kl. 14:44

Nemandi leitar að leka í kælikerfi. Mynd/Hafliði Hinriksson

Síldarvinnslan í Neskaupstað gefur lekaleitartæki, vigt fyrir kælimiðla, vacumdælu, tæmingardælu og mælibretti til verkmenntaskólans á staðnum.

Nýlega færði Síldarvinnslan Verkmenntaskóla Austurlands búnað til kennslu í kælitækni að gjöf. Um er að ræða lekaleitartæki, vigt fyrir kælimiðla, vacumdælu, tæmingardælu og mælibretti.

Frá þessu segir í umfjöllun á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Að sögn þeirra Hafliða Hinrikssonar, deildarstjóra rafdeildar skólans og Arnars Guðmundssonar, deildarstjóra málmdeildar, munu tækin nýtast afar vel til kennslu á vélstjórnarbraut og vélvirkjabraut. Benda þeir á að þekking á sviði kælitækni sé sífellt að verða mikilvægari og því afar brýnt að skólinn geti þjálfað nemendur í notkun þess búnaðar sem almennt er nýttur á því sviði. Segja þeir að nýi búnaðurinn, sem nú bætist við þá tækjaeign sem fyrir var, geri skólanum kleift að veita haldgóða kennslu.

Þeir Hafliði og Arnar vilja að fram komi að sá stuðningur sem fyrirtæki veiti skólanum til tækjakaupa sé ómetanlegur. Segja þeir að fyrirtæki á borð við Síldarvinnsluna sýni það svo sannarlega í verki að þau vilji að skólinn sé öflugur og geti veitt góða kennslu enda muni fyrirtækin njóta góðs af því þegar nemendurnir komi út á vinnumarkaðinn að námi loknu.

„Skólinn er afar þakklátur fyrir þá velvild sem hann nýtur og víst er að þeir 20 nemendur sem nú strax fá að njóta nýju tækjanna munu fá betri undirbúning en ella fyrir sín framtíðarstörf,“ segja þeir Hafliði og Arnar í viðtali heimasíðunnar.