fimmtudagur, 24. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Verður sjórinn of súr?

27. maí 2009 kl. 12:00

Rannsóknir hafa leitt í ljós að sjórinn hefur súrnað vegna útblásturs koltvísýrings sem hefur leitað til sjávar og breytt efnasamsetningu heimshafanna. Bresk stjórnvöld hafa ákveðið að verja sem svarar 2 milljörðum íslenskra króna í fimm ára rannsóknaverkefni á súrnun sjávar, að því er fram kemur á fréttavef BBC.

Bresk stjórnvöld telja að súrnun sjávar verði eitt af aðaláhyggjuefnum í umhverfismálum á þessari öld. Rannsóknirnar beinast að Atlantshafinu, Suðurheimskautinu og Norðurheimskautinu og væntanlega leiða þær í ljós hvernig vistkerfi sjávar bregst við auknum koltvísýringi.

Rekja má súrnun sjávar allt aftur til iðnbyltingarinnar. Heimshöfin hafa tekið við allt að 50% af koltvísýringi sem losnað hefur við bruna síðustu 200 árin. Við það hefur ph gildi sjávar lækkað um 0.1. Flestir vökvar liggja á bilinu ph 0 (mjög súr) og ph 14 (mjög basískt). Vökvi sem hefur gildið ph 7 er hlutlaus. Sjórinn er lítillega basískur með gildið ph 8.2. Vísindamenn spá því að ph gildi sjávar muni breytast til lækkunar um 0.14-0.35 á 21. öldinni. Það kemur til viðbótar 0.1 stiga lækkun sem orðið hefur eftir að iðnbyltingin varð.

Að sögn vísindamanna hafa höfin súrnað um 30% frá því iðnbyltingin hófst og er það hraðasta breytingin á efnasamsetningu sjávar á undanförnum 65 milljónum ára. Varað er við því að þetta geti leitt til útrýmingar fjölda tegunda í sjónum. Skeldýr eru sögð verða sérstaklega fyrir barðinu á þessari þróun. Því er jafnvel spáð að kóralrif geti hrunið í stórum stíl vegna súrnunar sjávar áður en 21. öldin er liðin. Stutt er síðan þessu vandmáli var gefinn gaumur og rannsóknir á koltvísýringsmengun sjávar eru því rétt að slíta barnsskónum.