þriðjudagur, 22. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vilja banna notkun örkorna úr plasti

9. maí 2016 kl. 14:00

Berast í sjávarlífverur og þaðan í menn

Bresk stjórnvöld íhuga að banna alfarið notkun örkorna úr plasti í snyrtivörur og húðkrem vegna gruns um að þessi efni skaði lífríki sjávar og heilsu manna.

Örkornin hafa verið notuð í snyrtivörur eins og Clinique, Johnson & Johnson, L'Occitane, Estée Lauder og Neutrogena. Notkun þeirra hefur þegar verið bönnuð í Bandaríkjunum, að því er breski ríkisfjölmiðillinn BBC greinir frá.

Rory Stewart, umhverfisráðherra Bretlands, hefur lagt fram tillögu um þetta sem umhverfisverndarsamtökin Greenpeace hafa fagnað mjög. Greenpeace hefur um langt skeið beitt sér gegn plastmengun í höfunum.

Umhverfisverndarsinnar hafa varað við því að örkornin berist í vissar fisktegundur, eins og t.d. túnfisk, og þaðan á disk neytenda.

Bresk stjórnvöld hafa þegar farið þess á leit við framleiðendur að þeir dragi sjálfviljugur smám saman úr notkun þessara efna. Skref hafa verið stigin í þessa átt hjá framleiðendum og söluaðilum eins og Unilever, L'Oreal, Boots, Clearasil, Superdrug og Marks & Spencer.

Samtök snyrti- og hreinlætisvöruframleiðenda í Bretlandi segir að fyrirtæki hafi sjálfviljug dregið úr notkun örkornanna þótt með tilmælunum hafi verið gefinn aðlögunarfrestur allt til ársins 2020.

Johnson & Johnson og Estee Lauder hyggjast hætta að nota örkorn úr plasti í árslok 2017. Elizabeth Arden er að endurskoða sínar framleiðsluvörur og þeim sem dreift verður til verslana frá og með júní verða án örkorna.

 

Fjölmargir vísindamenn sem sérhæfðir eru í lífríki sjávar segja að örkornin séu svo smá að þau festist ekki í vatnsgildrum heldur berist óhindrað til sjávar. Þar safnist þau fyrir í fiskum og öðrum sjávarlífverum og geti valdið eitrun í miklu magni.