sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vilja ekki sjá aukinn þorskkvóta!

9. júní 2009 kl. 15:00

Þorskkvótinn í Barentshafi má ekki aukast um 10% og fara í 577 þúsund tonn líkt og fiskifræðingar leggja til að mati forstjóra stærsta sölufyrirtækis sjávarafurða í Norður-Noregi.

Forstjórinn, Steinar Eliassen, segir að Norðmenn eigi allt of miklar birgðir af þorskafurðum. Eins og staðan sé á helstu mörkuðum fyrir sjávarafurðir um þessar mundir þá geti þeir ekki tekið við aukinni framleiðslum. Hún muni aðeins auka á þann vanda sem fyrir er á mörkuðunum.

Reidar Nilsen, forsvarsmaður heildarsamtaka í norskum sjávarútvegi, segir að afstaða til þess hvort kvótinn verði aukinn um 10% verði tekin á fundi norsk-rússnesku fiskveiðinefndarinnar í haust. Rússar eru hlynntir því að kvótinn verði aukinn, segir Reidar og hann reiknar ekki með því að Norðmenn muni afþakka sinn hlut í aukningunni.

Samtök fiskframleiðenda í Noregi telja hins vegar að of hátt þorskverð til útgerðarinnar eigi sök á því hruni sem hefur orðið á mörkuðum. Þeir benda á að fyrirsjáanlegt sé að fleiri þjóðir muni auka þorkskvótann á næsta ári og það gangi ekki að Norðmenn einir haldi að sér höndunum. Því sé eina ráðið að samið verði um hóflegt þorskverð fyrir næsta ár sem leiði til þess að fiskvinnslur hafi yfirhöfuð bolmagn til að kaupa þorskinn.

Heimild: Fiskeribladet/Fiskaren