föstudagur, 14. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vinnslustöðin borgar jarðskjálftamæli

13. nóvember 2017 kl. 13:00

Um mögulegar hættur vegna náttúruvár í Vestmannaeyjum þarf ekki að fjölyrða.

Nýr jarðskjálftamælir í Eyjum að frumkvæði Vinnslustöðvarinnar

Vinnslustöðin í Vestmanneyjum greiddi fyrir nýjan jarðskjálftamæli Veðurstofu Íslands sem settur var upp í Bjarnarey – bæði tæki og uppsetningu þeirra. Með nýjum mæli er unnt að staðsetja jarðhræringar undir Vestmannaeyjum með meiri nákvæmni en áður, en aðeins einn slíkur mælir var fyrir í Eyjum.

Á heimasíðu VSV segir frá þessu verkefni en Veiðifélag Bjarnareyinga og Björgunarfélag Vestmannaeyja lögðu verkefninu sömuleiðis lið.

Á hættusvæði
Forsögu málsins má rekja til sjómannaverkfallsins síðasta vetur þegar stjórnendur VSV nýttu tímann til að huga að viðbúnaði og öryggismálum fyrirtækisins – en þá stóð fyrirtækið fyrir málstofu þar sem vísindamenn frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands kynntu mögulegar afleiðingar náttúruvár, og ekki síst Kötlugoss.

Byggingar VSV eru margar hverjar á hættusvæði flóðbylgju sem getur orðið samfara Kötlugosi, en skip útgerðarfélaga í Eyjum, bæði í höfn og á sjó, eru talin í hættu af sömu ástæðu.

Þá er ótalin hætta á öskufalli frá Kötlu í Vestmannaeyjum og að eiturgufur berist til Eyja frá eldstöðinni. Fyrirtækið hefur unnið drög að viðbúnaðaráætlun vegna þessa, og fjármögnun nýs jarðskjálftamælis í Eyjum er hluti þeirrar vinnu.