sunnudagur, 25. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Yfir 400 manns í haldi sómalskra sjóræningja

11. maí 2010 kl. 13:08

Sjórán á Indlandshafi af hálfu Sómala eru síst í rénun. Núna eru yfir 400 sjómenn og að minnsta kosti 25 skip í haldi sómalskra sjóræningja. Hefur fjöldi gísla ekki áður verið meiri síðan sjóránin frá Sómalíu komust í algleyming árið 2007.

Þetta er staðan þrátt fyrir að gerðar hafi verið margvíslegar ráðstafanir, meðal annars af hálfu stórþjóðanna í heiminum, til þess að stemma stigu við ránunum.

Í síðustu viku tóku sómölsku sjóræningjarnir fiskiskip frá Taiwan á svæði norðan við Seychelles-eyjaklasans, að því er fram kemur á sjávarútvegsvefnum Fis.com. Um borð í skipinu voru 26 sjómenn frá Tævan, Kína, Kenía og Mósambik. Sjóræningjarnir sigla ránsfeng sínum jafnan inn í sómalska lögsögu eða til hafnar í Sómalíu þar sem stjórnleysi ríkir og  lög og réttur virtur að vettugi.

Eina leiðin fyrir eigendur skipanna er því að semja við sjóræningjanna um lausnargjald fyrir skip og áhöfn og hafa ræningjarnir jafnan borið fúlgur fjár úr bítum. Þess vegna halda sjóránin áfram.