miðvikudagur, 25. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Yfir 90% makrílafla fer til vinnslu

23. ágúst 2011 kl. 16:37

Makríll (Mynd: Þorbjörn Víglundsson).

Landaður afli orðinn 120 þúsund tonn af 157 þús. tonna kvóta.

Fiskistofa hefur að ósk sjávarútvegsráðherra tekið saman tölur um vinnslu makríls á yfirstandandi vertíð. Samkvæmt tölum stofnunarinnar sem ná fram til 10. ágúst fer innan við 9% af veiddum makríl til bræðslu og um 91% til vinnslu.

Í yfirliti Fiskistofu kemur fram að eftirlit með veiðum, vigtun og skráningu makríls hefur gengið vel. Eftirlit með löndunum svokallaðra uppsjávarskipa hefur náð til helmings allra landana. Að auki hefur verið fylgst sérstaklega með makríllöndunum annarra skipa og fylgst með veiðum og vinnslu þeirra skipa sem vinna afla um borð.

Af um 157 þúsund tonna heildaraflamarki Íslands á árinu 2011 voru 99 þúsund tonn komin að landi 10. ágúst síðastliðinn. Þar af fóru 9 þúsund tonn til bræðslu og 90 þúsund til vinnslu, ýmist fryst eða ísað.

Staðan í dag er sú að búið er að skrá löndun á 120 þús. tonnum hjá Fiskistofu. Gera má ráð fyrir að aflinn sé orðinn nokkru meiri því vafalaust hefur ekki allur afli vinnsluskipa skilað sér á skrá ennþá.