mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ýmsir valkostir vegna makríldóma Hæstaréttar

1. mars 2019 kl. 15:33

Makrílveiðar um borð í íslensku fiskiskipi. MYND/Grétar Ómarsson

Starfshópur vegna makríldóma Hæstaréttar hefur skilað ráðherra skýrslu

Starfshópur um viðbrögð vegna makríldóma Hæstaréttur hefur skilað sjávarútvegsráðherra skýrslu um niðurstöður sínar.

Starfshópurinn fékk það hlutverk að skoða hvernig stjórnvöld gætu brugðist við Hæstaréttardómunum tveimur frá í desember 2018, þar sem dómstóllinn viðurkenndi skaðabótaábyrgð íslenska ríkisins vegna tjóns tveggja útgerðarfélaga í Vestmannaeyjum, Vinnslustöðvarinnar hf og Hugins ehf.

„Að áliti starfshópsins getur ráðherra ekki viðhaldið þeirri veiðistjórn makrílveiða sem hefur verið lítt breytt frá árinu 2011,“ segir í skýrslunni. „Ljóst er að setning reglugerðar fyrir næsta veiðitimabil, sem fæli það í sér, mundi brjóta gegn lögunum.“

Nefndin telur ráðherra engu að síður skylt að ákveða leyfilegan heildarafla í makríl fyrir næsta tímabil, en taka þurfi afstöðu til þess hvort það verði gert með reglugerð á grundvelli gildandi laga eða hvort farin verði sú leið að Alþingi setji lög sem síðan yrðu grundvöllur reglugerðar um úthlutun.

Að óbreyttum lögum er ráðherra einungis heimilt að ákveða með reglugegð að miða aflahlutdeild í makríl við veiðireynslu þriggja bestu veiðitímabila af síðustu sex árum, þ.e. 2013 til 2018, segir starfshópurinn.

En ef gefin væri út reglugerð vegna veiða á árinu 2019 sem miðaði við veiðireynslu á árunum 2013-2018 er líklegt að sú úthlutun myndi skapa ríkinu skaðabótaskyldu.

Nefndir rekur í skýrslunni nokkra þá valkosti sem stjórnvöld hafa í stöðunni, hvort heldur sem látið yrði nægja að gefa út reglugerð eða ef ákveðið yrði að breyta lögum. Nánar má lesa um það í skýrslunni.