Uppnám vikunnar varð að þessu sinni vegna ákvörðunar Íslandsbanka um að leggja mat á fjölmiðla eftir því hvernig þeir stæðu sig í jafnréttismálunum og haga auglýsingakaupum sínum eftir því. Eins og við var að búast skiptist fólk nokkuð í tvö horn um þá ákvörðun. Sumir tóku þessu frumkvæði fagnandi og töldu það mikilvægt framfaraskref til frekara jafnréttis kynjanna. Aðrir fundu því allt til foráttu og höfðu einkum á orði að með því væri verið að vega að sjálfstæði ritstjórna á fjölmiðlum landsins.

* * *

Fjölmiðlarýnir er eilítið beggja blands í þessu. Auðvitað verða fyrirtæki að fá að ákveða með hvaða hætti þau haga viðskiptum sínum og þar geta margvísleg gild sjónarmið haft áhrif. Eins er það örugglega rétt athugað að miðlarnir mega flestir vel við því að vera duglegri við að fá konur sem viðmælendur jafnt og karla. Sömuleiðis er óneitanlega talsverður kynjahalli í blaðamannastétt, þó hann hafi vissulega farið minnkandi á undanförnum áratugum.

Svo er á hitt að líta, að um margt af þessu geta fjölmiðlar lítið ráðið. Þrátt fyrir að Ísland sé í fremstu röð í heiminum hvað jafnrétti áhrærir, er það enn svo að atvinnuþátttaka karla er meiri en kvenna. Eins er það svo í mörgum stéttum, að þar er verulegur kynjahalli, án þess að þar að baki búi nokkurt ójafnrétti. Það eru mjög fáar konur til sjós og karlar eru mun færri en konur í kennarastétt, svo dæmi séu tekin. Hjá hinu opinbera eru konur nánast ⅔ starfsmanna, en karlar virðast fremur sækja í einkageirann. Er þá ónefnt að jafnréttisbaráttan tekur sinn tíma, eins og endurspeglast vel í stórtækum breytingum á menntunarmynstri kynjanna á undanförnum áratugum, sem nú fyrst er farið að skila sér í einhverjum mæli í hlutföllum kynjanna í stjórnunarstöðum, en þó er það svo að þegar horft er til stærstu eða framúrskarandi fyrirtækja, þá eru karlar þar í yfirgnæfandi meirihluta.

Eiga fjölmiðlar að bera ábyrgð á því? Þegar eitthvað er í fréttum er yfirleitt reynt að ræða við stjórnendur, af því að þeir eru í forsvari, þeir bera ábyrgðina og geta oft einhverju um valdið. En ef þeir eru langflestir karlar, hvað eiga fjölmiðlarnir þá að gera til þess að hanga í náðinni hjá Íslandsbanka?

* * *

Þetta með náðina er lykilatriði. Þarna er eitt af stærstu fyrirtækjum á Íslandi að beita sér til þess að ná frekar óræðum markmiðum, beinlínis að reyna að hlutast til um efnistök fjölmiðla og hótar efnahagslegum refsiaðgerðum ella. Er það frjálsum fréttaflutningi hollt og gott?

Nei, því hlutverk fréttamiðla er það helst að flytja fréttir, greina hið markverðasta og leiða fram sjónarmið málsaðila eða vitna. Þar hafa þeir sjaldnast mikið svigrúm til þess að velja viðmælendur eftir kynferði eða einhverjum eðlisþáttum öðrum, sem ekki varða umfjöllunarefnið með beinum hætti.

Fyrir blað eins og Viðskiptablaðið, sérrit um afmarkaðan þátt samfélagsins, getur þar verið einstaklega óhægt um vik. Hefur blaðið þó lagt sig í líma við að sinna konum á vettvangi atvinnuog viðskiptalífs. Hið sama á við um skipan ritstjórnarinnar, þar sem töluvert hefur verið ráðið af konum. Blaðinu hefur hins vegar ekki haldist vel á þeim, því þær hafa reynst ákaflega eftirsóttar á öðrum vettvangi, ekki síst hjá fjármálafyrirtækjum sem hafa ráðið þær í hrönnum með atvinnutilboðum, sem lítill fjölmiðill getur seint jafnað. Ætli Edda Hermannsdóttir, sem kynnti fyrrgreinda ákvörðun Íslandsbanka, sé ekki gott dæmi um það!

* * *

Annað mál tengt ríkisbanka kom upp í vikunni, en það tengist hinum langvinnu málum Samherja og Seðlabankans. Fjölmiðlarýnir rak raunar augun í að sá bragðvísi Óðinn fjallar talsvert um það annars staðar hér í blaðinu og fer þannig freklega inn á umfjöllunarsvið þessara dálka. Hér skal vikið að örlítið öðrum þáttum þess, en jafnframt mælt með dálki Óðins.

Tilefni frétta þessarar viku var birting á bréfaskriftum milli forsætisráðuneytis og Seðlabanka um hvernig málið fór af stað á sínum tíma, en þar er einkum vikið að því hvernig Kastljós Ríkisútvarpsins tengdist málinu og hvernig það hefði komist á snoðir um húsleit hjá Samherja. Margir brugðust ókvæða við þessu, þar á meðal formaður Blaðamannafélagsins, og þótti ótækt að athuga nokkuð það sem tengst gæti störfum fréttamanna.

Hér að baki býr eilítill misskilningur. Að sjálfsögðu eiga stjórnvöld ekki að hnýsast um störf blaðamanna, knýja fram hverjir séu heimildarmenn þeirra eða þess háttar. En að sama skapi hlýtur þeim að vera heimilt, nei skylt, að athuga hver hefur rofið trúnað þann, sem áskilinn er opinberum starfsmönnum, og er auðvitað sérstaklega mikilvægt þegar í hlut eiga handhafar rannsóknarvalds og úrskurðarvalds, eins og Seðlabankinn var í þessum efnum.

Við blasir að það getur einungis hafa verið starfsmaður Seðlabankans, sem gerði Kastljósmönnum viðvart um húsleitina. Eins að sú gjörð gat verið til þess fallin að spilla rannsókninni og draga úr réttaröryggi þeirra, sem til rannsóknar eru. Af þeirri ástæðu er full ástæða til þess að athuga það til hlítar innan Seðlabankans, hugsanlega af öðru yfirvaldi, án þess að þar sé í nokkru á fjölmiðla hallað.

Það flækir málin þó óneitanlega að það var Kastljósið, sem átti frumkvæði að rannsókninni, líkt og staðfest var í bréfi Seðlabankans til forsætisráðherra 12. apríl, en þar sagði að hinn 21. febrúar 2012 hefði starfsmaður Ríkisútvarpsins afhent Seðlabankanum tiltekin gögn og voru þau hluti rannsóknar í máli Samherja hf. og tengdra aðila. Hið sama kom fram í máli Más Guðmundssonar í vor á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Þarf þó varla þá staðfestingu til, því í upphafi Kastljóssþáttarins 27. mars 2012 (sama dag og húsleit fór fram hjá Samherja) sagði þetta: „Rannsókn Kastljóss varð kveikjan að rannsókn yfirvalda“.

Í bréfaskrifunum, sem nú eru opinber, kemur fram að starfsmaður Ríkisútvarpsins var í tölvupóstsamskiptum við framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits bankans í mánuð fyrir húsleitina. Í fyrradag birti Seðlabankinn nánari útskýringu á þessu atriði:

Nánar tiltekið fólust samskiptin í því að fréttamaðurinn sendi uppkast að frétt með tölvupósti þar sem húsleitarinnar var getið — daginn áður en hún fór fram. Rannsókn bankans sýndi hins vegar að þessum pósti var ekki svarað. Það er því ekkert sem liggur fyrir um að upplýsingum hafi verið lekið frá Seðlabankanum enda ljóst að téð húsleit var á vitorði margra.

Þau samskipti og tímasetningarnar benda óneitanlega til þess að þar á milli hafi ríkt náið trúnaðarsamband og samvinna, uppkastið sennilega sent til þess að fá ábendingar um eitthvað sem betur mætti fara. Enn galnara er það þó allt þegar þar er á ferðinni uppkast að frétt um húsleit í Samherja – sem átti að fara fram degi síðar!

Af hálfu bankans er því haldið fram að ekkert í tölvupóstsamskiptum stjórnenda hjá bankanum bendi til þess að þeir hafi lekið upplýsingum um húsleitina til Kastljóss. Það reynir mjög á trúgirni manna og hrekkleysi. Vekur raunar grunsemdir um maðka í mysunni, að ekki hafi verið athugaðar símafærslur, textaskilaboð, annar tölvupóstur á vegum stjórnendanna eða ámóta. Sá grunur er svo rökstuddur þegar bankinn bætir við þeim varnagla að hafi framkvæmdastjórinn nú samt veitt fyrirfram upplýsingar um húsleitina þá hafi það bara verið mistök!

* * *

Eitt enn í þessu samhengi. Eftir dúk og disk og dóm héraðsdóms afhenti Seðlabankinn loks fádæma rausnarlegan starfssamning við fyrrnefndan framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlitsins, eftir að hafa þráast við beiðnum blaðamanns Fréttablaðsins þar um. Og þó. Því eftir allt stímabrakið fékk hann ekki samninginn í hendur til þess að vinna frétt úr, heldur var hann bara birtur, svo hver sem er gat gert sér mat úr. Það ber ekki vott um háttvísi.

Fjölmiðlarýni Andrésar Magnússonar birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .